Lögreglan í Brussel fann í gær búnað til sprengjugerðar í húsi í Schaerbeek-hverfinu í norðurhluta borgarinnar. Ljóst þótti að bræðurnir Khalid og Ibrahim el Bakraoui hefðu, ásamt félögum sínum, notað húsnæðið við undirbúning hryðjuverkanna á þriðjudag.
Lögreglan fann þar meðal annars tölvu sem annar bræðranna, Ibrahim, hafði notað en hent í ruslið. Á tölvunni var að finna eins konar yfirlýsingu, þar sem hann segist vera á flótta og ekki geta hugsað sér að lenda í fangelsi: „Ég veit ekki hvað ég á að gera. Ég er að flýta mér. Ég er á flótta. Menn eru að leita að mér alls staðar. Og ef ég gef mig fram þá enda ég í fangelsi.“
Ibrahim, eða Brahim eins og hann er einnig nefndur, er sá sem sprengdi sig í loft upp á flugvellinum í Brussel. Hinn bróðirinn, Khalid, sprengdi sig á lestarstöðinni.
Samtals myrtu þeir, ásamt þriðja manninum sem einnig sprengdi sig á flugvellinum, meira en 30 manns.
Fjórði maðurinn, Najim Laachraoui, komst undan og var hans ákaft leitað í gær. Hann er talinn hafa verið sprengjusérfræðingurinn í hópnum og sást á flugvellinum í Brussel ásamt öðrum Bakraoui-bróðurnum og þriðja manni, sem einnig sprengdi sig í loft upp.
Laachraoui virðist hafa verið með stærstu sprengjuna, en af einhverjum ástæðum sprakk hún ekki og hann lét sig hverfa.
Fjölmiðlar í Belgíu héldu því fram í gærmorgun að Laachraoui hefði verið handtekinn í Anderlecht-hverfinu í Brussel, en þær fregnir voru bornar til baka. Annar maður var handtekinn þar og yfirheyrður í tengslum við árásirnar.
Talið er að Salah Abdeslam, sá sem handtekinn var í Brussel í síðustu viku, hafi líklega ætlað sér að taka þátt í hryðjuverkaárás í Brussel með félögum sínum, sem síðan létu til skarar skríða á þriðjudaginn. Þetta hefur bandaríska fréttastöðin CNN eftir belgískum embættismanni.
Salah hefur verið í yfirheyrslum og veitt lögreglunni margvíslegar upplýsingar, bæði um árásirnar í Brussel á þriðjudaginn og árásirnar í París í nóvember, sem kostuðu 130 manns lífið. Salah tók sjálfur þátt í árásunum í París en sprengdi sig á endanum ekki í loft upp, þótt talið sé að hann hafi upphaflega ætlað að gera það.
Bróðir hans, Brahim Abdeslam, var hins vegar einn þeirra sem drápu sig í París.
Hetjudraumar og ævintýraþrá
Í skýrslu frá evrópsku lögreglustofnuninni Europol frá í janúar síðastliðnum segir að evrópskir hryðjuverkahópar, sem kenna sig við Íslamska ríkið, séu að mestu „heimaræktaðir“ og staðbundnir.
Þá segir í skýrslunni að stór hluti þeirra Evrópubúa, sem haldið hafa til liðs við Íslamska ríkið í Sýrlandi eða Írak, hafi áður greinst með geðræn vandamál. Margir þeirra hafi auk þess áður komist í kast við lögin, ýmist fyrir smáglæpi eða stærri afbrot.
Þar segir einnig að trúarleg áhrif hafi að stórum hluta vikið fyrir félagslegum þáttum þegar skoðað er hvað hreki einstaklinga út á þessar brautir. Þar skipti jafningjaþrýstingur og félagslegar fyrirmyndir meira máli en trúarlegar pælingar
„Auk þess gætu rómantískar væntingar um að vera þátttakandi í mikilvægum og spennandi atburðum átt hlut að máli,“ segir í skýrslunni. „Sjálfsvígssprengjumenn líta frekar á sig sem hetjur en trúarlega píslarvotta.“
Fréttin birtist fyrst Fréttablaðinu 24. mars
Fundu búnað til sprengjugerðar í húsleit
Guðsteinn Bjarnason skrifar

Mest lesið

Kjarasamningur kennara í höfn
Innlent

Engin röð á Læknavaktinni
Innlent






Reykjavík ekki ljót borg
Innlent

