Erkifjendurnir Liverpool og Manchester United mætast í fyrsta sinn í Evrópukeppni í kvöld þegar þau takast á í fyrri viðureign sinni í 16 liða úrslitum Evrópudeildarinnar.
Langt er síðan bæði lið fögnuðu sigri í Evrópukeppni. Liverpool vann síðast Meistaradeildina árið 2005 en Manchester United vann hana 2008. United fór aftur í úrslitaleikinn 2009 og 2011 en tapaði bæði skiptin fyrir Barcelona.
Liverpool er miklu sigursælla í Evrópu en Manchester United. Það hefur unnið samtals ellefu Evróputitla; meistaradeildina fimm sinnum, evrópukeppni félagsliða þrisvar sinnum og stórbikar Evrópu í þrígang. United hefur unnið Meistaradeildina þrisvar sinnum, Evrópukeppni bikarhafa einu sinni og stórbikarinn einu sinni.
Þrátt fyrir að vera með mun ríkari sögu í Evrópu er gengi Liverpool gegn enskum liðum í Evrópukeppnum eitthvað fyrir stuðningsmenn þess að hafa áhyggjur af.
Í 16 leikjum á móti enskum liðum í Evrópu hefur Liverpool aðeins unnið fjóra, gert sjö jafntefli og tapað fimm. Markatalan er 17-19 en þetta gerir sigurhlutfall upp á 25 prósent.
Það hjálpar ekki Liverpool að þrátt fyrir öll vandræði Louis van Gaal á Old Trafford er hann búinn að vinna alla fjóra leiki sína gegn Liverpool í ensku úrvalsdeildinni síðan hann tók við starfinu.
Leikur Liverpool og Manchester United verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport 2 HD í kvöld klukkan 20.00.
