Úr varð að blásið var til neyðarfundar með framleiðendum og Thelmu kippt inn. „Ég vissi ekkert af þessu, þau höfðu haft samband við kærastann minn, og hann hélt þessu leyndu. Ég er manneskja sem fattar allt svona, en þetta kom mér algjörlega á óvart og ekkert annað en magnað að geta komið keppanda aukalega fyrir,“ segir Thelma og skellir upp úr. „Hann fékk að vita þetta á föstudag svo hann hafði tök á að skipuleggja þetta þannig að ég yrði örugglega heima. Hann stakk upp á að við færum í bröns á sunnudeginum, vitandi að ég myndi þá hafa mig til en ekki bara vera heima á náttfötunum þegar tökuliðið kæmi.“
Thelma Dögg heillaði þannig dómarana greinilega upp úr skónum með flutingi sínum á laginu Brokenhearted með Karmin. Ekki verður hjá því komist að spyrja hana út í þann verknað að klæða sig úr skónum áður en hún hóf upp raust sína. Hún skellihlær og svarar: „Ég fór úr þeim vegna þess að ég þurfti að finna jarðtenginguna þarna. Það er sennilega jóginn í mér. Þegar ég útskýri það hefur líklega verið klippt út, svo það er ágætt að fá tækifæri til að skýra það hér,“ bendir hún á. Segist hún hafa farið að iðka jóga reglulega í kjölfar veikinda, en hún stendur nú í ströngu við að endurhæfa sig eftir að hafa þjáðst af taugalömun.
„Ég hef verið að vinna mikið í þessu með góðu teymi. Það er mikilvægt að vinna í sér, hvort sem það er líkamlega eða andlega. Það er ótrúlegt að þurfa að lenda í veikindum eins og þessum til þess að maður meti og fatti hvað maður hefur.“
Thelma Dögg veigrar sér því ekki við að sökkva sér í æfingar fyrir undanúrslitin, en hún kemur til með að stíga á svið þann 20. mars, í síðasta hollinu.
„Ég hef fengið Regínu Ósk til að hjálpa mér. Hún er algjör snillingur. En mitt atriði er algjörlega á byrjunarstigi ennþá. Vonandi tekst mér að sýna hvað í mér býr. Ég hlakka mjög mikið til,“ útskýrir hún brosandi.