Bandaríkjamaðurinn Chuck Garcia, leikmaður Grindavíkur, kom lítið við sögu er hans menn töpuðu fyrir Tindastóli, 88-79, í gær.
Sjá einnig: Sex sigrar í röð hjá Stólunum
Garcia spilaði í aðeins tæpar þrjár mínútur í leiknum og skoraði ekki stig. Eftir leik sagði Jóhann Þór Ólafsson, þjálfari Grindavíkur, að Garcia hafi átt erfitt með andardrátt síðustu þrjár vikurnar.
„Hann hefur átt erfitt með andardrátt síðustu þrjár vikur og nær ekki andanum og það er ekki skynsamlegt að vera að spila þegar að það er þannig stand á mönnum,“ sagði Jóhann Þór í gær.
„Við tókum enga sénsa að hann myndi t.d. krassa á Holtavörðuheiðinni á leiðinni heim þannig að hann var bara hvíldur hérna í kvöld.“
Jóhann Þór sagði að Garcia hafi verið í rannsóknu að undanförnu og að vonandi fengi hann niðurstöðu fyrir leik Grindavíkur gegn Njarðvík á fimmtudaginn.
Grindavík er sem stendur í níunda sæti deildarinnar með sextán stig, jafn mörg og Snæfell sem er í áttunda sætinu og því síðasta sem veitir þátttökurétt í úrslitakeppninni.
Snæfellingar eiga erfiðan útileik gegn Þór Þorlákshöfn á fimmtudaginn og verða Grindvíkingar að vinna sinn leik gegn Njarðvík og stóla á tap Snæfells til að komast í úrslitakeppnina.
Leikmaður Grindavíkur á erfitt með andardrátt

Tengdar fréttir

Umfjöllun og viðtöl: Tindastóll - Grindavík 88-79 | Sex sigrar í röð hjá Stólunum
Tindastólsmenn hafa unnið alla leiki sína eftir komu Bandaríkjamannanna Myron Dempsey og Anthony Isaiah Gurley og Stólarnir bættu við sjötta sigrinum í röð þegar þeir unnu níu stiga sigur á Grindavík, 88-79, í kvöld í 21. umferð Domino´s deild karla í körfubolta.