Innlent

Á þriðja tug hefur skráð sig úr Samtökunum ’78

Sæunn Gísladóttir skrifar
Margir innan Samtakanna ’78 eru á móti aðild BDSM-samtakanna.
Margir innan Samtakanna ’78 eru á móti aðild BDSM-samtakanna. vísir/vilhelm
Tuttugu og fjórir hafa skráð sig úr Samtökunum ’78 en sex hafa skráð sig í samtökin í kjölfar þess að aðildarumsókn BDSM-samtakanna var samþykkt um helgina. Alls eru 1.146 manns skráðir í samtökin.

Málið hefur vakið miklar umræður á samfélagsmiðlum og hafa margir lýst því yfir að með aðild BDSM-samtakanna sé verið að rugla saman kynhneigð og kynórum, einnig hefur verið bent á að í langan tíma hafi hinsegin fólk barist gegn því að fókusinn sé settur á kynlífið. Málið er að sögn Hilmars Hildar Magnússonar formanns ákaflega erfitt viðureignar, svo mjög að tala megi um klofning.

Í kosningunum á laugardaginn féllu atkvæði þannig að 47 greiddu atkvæði með og 40 á móti.

Stjórn Samtakanna ’78 segir þó að fréttir um klofning í samtökunum séu stórlega ýktar. „Í dag hafa verið bæði skráningar í félagið og úr því en hvorugur hópurinn er fjölmennur miðað við heildarfjölda félaga sem telur um 1.100 manns,“ segir í yfirlýsingu sem stjórn félagsins sendi frá sér í gær.

Til stendur að halda félagsfund í samtökunum til að fara betur yfir málið en stjórnin óskar eftir að fá svigrúm til að bregðast frekar við málinu en gert er í yfirlýsingunni. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×