„Það eru ótrúlegir fingurbrjótar gagnvart almenningi,“ segir Þórólfur.
„Þetta er mjög einhliða samningur, það er verið að setja kvaðir á skattgreiðendur um að borga mjög háar upphæðir en það koma engar kvaðir á móti. Það er ekki einu sinni einhver sölukvöð gagnvart neytendum. Þegar það gerðist fyrst eftir hrun að verðið á kindakjöti í íslenskum krónum var betra erlendis en hér, þá fóru þeir að flytja út kjöt í gríð og erg,“ segir hann.

Öll sú hagræðing sem orðið hefur í verslun síðustu 20-30 árin er vegna þess að menn hafa verið að laga til flutningakerfin hjá sér,“ bendir hann á.
Þórólfur segir að með nýju samningunum sé bændum haldið föstum í kerfi þar sem nýsköpun sé hindruð. „Allur þessi beint-frá-býli hugsunarháttur er algjörlega fyrir utan þetta og það er verið að kæfa hann næstu tíu árin með þessu,“ segir hann.
„Þessir bændur í hefðbundna landbúnaðinum fá mikið af pening, en það er haldið aftur af nýsköpunarkraftinum, komið í veg fyrir strúktúrbreytingar í því.“
Aukinn stuðningur auki óhagræði
Búvörusamningurinn er til tíu ára og kveður á um greiðslur frá ríkinu til landbúnaðarins upp á 132 milljarða króna, auk þess sem OECD hefur metið kostnað af tollvernd landbúnaðarins á tæpa 9 milljarða króna á ári. Útgjöld til landbúnaðarmála munu aukast um 900 milljónir króna á næsta ári í um 13,8 milljarða króna á ári. Meðal þess sem bætist við er stuðningur við nautakjötsframleiðslu og geitfjárrækt sem ekki hefur áður verið styrkt af ríkinu. „Ef það var hægt að reka þær án stuðnings til þessa, af hverju í ósköpunum að gera þær óhagkvæmari með þessu móti?“ spyr Þórólfur.
Leiðrétt 9:35: Í fyrri útgáfu greinarinnar var ranglega haft eftir Þórólfi að útflutningur á nautakjöti en ekki kindakjöti hefði valdið kjötskorti eftir hrun.