Sáttafundi starfsmanna álversins í Straumsvík og Rio Tinto Alcan á Íslandi, sem hófst klukkan eitt í dag, lauk án árangurs á þriðja tímanum. Kolbeinn Gunnarsson, formaður Verkalýðsfélagsins Hlífar, segir báða aðila hafa viðrað ákveðnar hugmyndir án þess að nein efnisleg niðurstaða kæmi fram.
Annar fundur hefur ekki verið ákveðinn en lögum samkvæmt ber ríkissáttasemjara að boða til annars fundar innan tveggja vikna, óski deiluaðilar þess ekki sjálfir.
Ekki verður skipað út áli úr Straumsvík fyrr en niðurstaða fæst í málið. Ólafur Teitur Guðnason, upplýsingafulltrúi Rio Tinto Alcan, segir verkfallsaðgerðirnar stefna fyrirtækinu í voða.
„Ef við getum ekki selt ál í fyrirsjáanlegri framtíð þá hljótum við að vera í tvísýnni stöðu svo ekki sé fastar að orði kveðið,“ segir Ólafur Teitur. „En ég verð að trúa því og vona að við náum samningum og það er svo sannarlega okkar einlægi vilji og að því stefnum við mjög stíft.“
Um 900 tonn af áli eru komin um borð í skipið, sem er um einn fjórði af því sem venjulega er skipað út frá Straumsvík, en mestu af því var lestað í gær.
Sáttafundi í álversdeilunni lokið án árangurs

Tengdar fréttir

Náðu að lesta fimm hundruð tonnum af áli
Verkfallsverðir stöðvuðu álflutning úr álverinu í Straumsvík.

Útflutningsbann hefst í Straumsvík á miðnætti
Félagsdómur úrskurðaði nú í kvöld að bannið væri ekki ólöglegt.

Álverið hefur nú þegar skaðast af aðgerðum
Ólafur Teitur Guðnason segir kaupendur áls frá álverinu í Straumsvík hafa áhyggjur af stöðunni. Félagsdómur kemur saman seinnipartinn í dag vegna deilunnar.

Segir yfirmenn í fullum rétti til að ganga í störfin
Um tuttugu yfirmenn í álverinu í Straumsvík gerðu tilraun til að skipa út áli þar í morgun í trássi við útflutningsbann en voru stöðvaðir af verkfallsvörðum.

„Rannveig Rist er komin niður á höfn með hóp stjórnenda sem ætlar að ganga í störfin“
Verkfall starfsmanna í álverinu í Straumsvík er hafið.