Þó ég hafi unnið við annað en myndlist lengst af hef ég alltaf verið að teikna og mála,“ segir Helga Kristjánsdóttir listmálari sem nýlega var valin bæjarlistamaður Grindavíkur 2016 af frístunda- og menningarnefnd staðarins.
Hún er að vinna í Art-galleríi á Laugavegi 44 þegar ég trufla hana. „Við erum fjórtán konur sem höfum rekið þetta gallerí frá því í ágúst á síðasta ári í húsnæðinu sem Skarthúsið var í og skiptumst á um að afgreiða þar,“ útskýrir hún.
Helga hefur alltaf átt heima í Grindavík fyrir utan tímabil sem hún bjó í Barselóna. „Ég byrjaði á að læra til sjúkraliða og vann við umönnun í nokkur ár, fór þá í hárgreiðslu í Iðnskólanum og vann við hana í 17 ár. Þá var ég búin að fá nóg.“
Hún kveðst hafa stigið sín fyrstu alvöru spor í myndlistinni árið 1995 þegar hún hóf nám í Myndlistaskóla Reykjavíkur.
„Áhuginn var svo mikill að ég hef aldrei getað hætt,“ segir hún glaðlega og kveðst árið 2002 hafa flutt til Barselóna til að fara í skóla.
„Ég lærði málaralist í Escola Massana og kynntist Spánverjum í myndlist sem ég held alltaf sambandi við, var í einkakennslu í eitt ár og tók þátt í vinnustofum með Cynthiu Packard í Boston 2008 og Serhiy Savchenko í Úkraínu 2010.“
Ekki lét Helga þar staðar numið því 2015 fór hún til Slóveníu að læra grafík og í framhaldi af því var henni boðið að taka þar þátt í myndlistarviku og samsýningu með listamönnum frá tíu þjóðum í júní í fyrra.
„Nú er ég komin á fullt í listina og er svo heppin að hafa stóra vinnustofu í Grindavík niður við sjó. Er dugleg að ganga meðfram hafinu og fæ hugljómun á hverjum degi. Veðrið og birtan eru svo síbreytileg.“
Fæ hugljómun á hverjum degi
