Jürgen Klopp varð að ósk sinni þegar Liverpool og Manchester United drógust saman í 16-liða úrslitum Evrópudeildarinnar í dag.
Þetta verður í fyrsta sinn sem þessir erkifjendur mætast í Evrópukeppni en fyrri leikurinn fer fram á Anfield 10. mars og sá seinni á Old Trafford viku seinna.
Sjá einnig: Liverpool fær miklu meiri hvíld en United fyrir seinni leikinn
„Þetta er frábært. Við eigum skilið að fá svona leiki,“ sagði Klopp og bætti við: „Þetta verður ekki auðvelt en ég vildi fá Man United.“
United vann leik liðanna á Anfield í janúar með einu marki gegn engu og Klopp vill ólmur hefna fyrir þann ósigur sem honum fannst ekki sanngjarn.
„Við þurfum að jafna sakirnar. Við spiluðum vel á móti þeim á Anfield en töpuðum 0-1.
„Nú fáum við tækifæri til að svara fyrir okkur og það munum við reyna að gera,“ sagði Þjóðverjinn sem er á fullu að undirbúa sína menn undir úrslitaleikinn í deildabikarnum gegn Manchester City á sunnudaginn.
Leikur Liverpool og Man City hefst klukkan 16:30 á sunnudaginn og verður sýndur í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport og Stöð 2 Sport 2.
