
„J.K. Rowling og teymið hennar hafa fengið fjöldan allan af bónum frá aðdáendum sem geta ekki séð sýninguna og myndu vilja eiga kost á að geta lesið leikritið. Við erum hæstánægð með að geta orðið við þeirri bón,“ segir í yfirlýsingu frá stjórnanda Little, Brown Book Group sem gefur bókina út.
Leikritið verður frumsýnt degi áður en bókin kemur út. Höfundar þess eru J.K. Rowling, Jack Thorne og John Tiffany. Í því sést Harry nítján árum eftir að lokabókin í flokknum, Harry Potter og dauðadjásnin, endar. Hann er orðinn skyggnir og starfar í galdramálaráðuneytinu.
Þetta verður áttunda bókin í bókaflokknum um Potter en sú síðasta kom út fyrir níu árum síðan.