Áfram verður reynt að lækka kostnað í álverinu í Straumsvík en Rio Tinto eigandi álversins hefur boðað milljarðs dollara niðurskurð í ár og svo aftur á næsta ári. Í svari frá upplýsingafulltrúa álversins verður áfram lögð þung áhersla á að lækka kostnað, eins og gert hefur verið nokkur undanfarin ár í ljósi bágrar afkomu álversins.
Afkomutölur Rio Tinto, eins stærsta námufyrirtækis heims, vegna síðasta árs voru kynntar í gær. Þar kom fram að tap hefði verið á samsteypunni sem nemur 866 milljónum dollara, eða 112 milljörðum íslenskra króna. Það er talsverður viðsnúningur frá árinu áður, 2014, þegar 6,53 milljarða dollara, eða 845 milljarða króna, hagnaður var hjá fyrirtækinu.
Ólafur Teitur Guðnason, upplýsingafulltrúi Rio Tinto Alcan, álversins í Straumsvík, segir það þó ekki hafa komið til tals, sér að vitandi, að loka álverinu í Straumsvík.
Þrátt fyrir bága stöðu námurisans mega hluthafar enn eiga von á talsverðum arðgreiðslum á næstunni. Samkvæmt ársreikningi Rio Tinto stendur til að greiða út 2 milljarða dollara í arðgreiðslur vegna 2016, eða sem nemur 1,10 dollar á hlut.
Milljarða dollara niðurskurður hjá Rio Tinto: Leita áfram leiða til að lækka kostnað í Straumsvík

Tengdar fréttir

112 milljarða tap á Rio Tinto
Vilji stjórnarinnar stendur til að greiða út að lágmari 110 dollara á hlut í ár, eða jafnvirði 2 milljarða dollara.