Enski boltinn

Özil ekki lengur stoðsendingakóngur Evrópu

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Mesut Özil hefur ekki lagt upp mark í síðustu fjórum leikjum sem hann hefur spilað.
Mesut Özil hefur ekki lagt upp mark í síðustu fjórum leikjum sem hann hefur spilað. vísir/getty
Mesut Özil, miðjumaður Arsenal í ensku úrvaldeildinni, er ekki lengur stoðsendingakóngur Evrópu þegar kemur að stærstu fótboltadeildum álfunnar.

Þjóðverjinn byrjaði tímabilið stórkostlega og lagði upp 16 mörk fyrir áramót en hefur nú ekki gefið stoðsendingu í fjórum leikjum í röð og þá var hann frá vegna meiðsla í þeim fimmta.

Özil stefnir leynt og ljóst að stoðsendingameti Thierry Henry sem eru 20 á einni leiktíð í úrvalsdeildinni, en þrátt fyrir að vera ískaldur í byrjun nýs árs hefur hann enn fjórtán leiki til að ná meti Frakkands og bæta það.

Henrik Mkhitaryan fagnar með Dortmund.vísir/getty
Armenski framherjinn Henrik Mkhitaryan, leikmaður Borussia Dortmund, er kominn á topp stoðsendingalistans, en hann er búinn að leggja upp 17 mörk í öllum keppnum á tímabilinu.

Özil deilir nú öðru sætinu með 16 stoðsendingar ásamt Neymari, leikmanni Barcelona, og þeir Kevin De Bruyne, leikmaður Manchester City, og Ángel di María, leikmaður PSG, eru saman í 4.-5. sæti með tólf stoðsendingar hvor.

Mkhitaryan hefur vissulega „aðeins“ lagt upp níu mörk í þýsku 1. deildinni, en hefur aftur á móti verið duglegur í bikarnum og Evrópudeildinni. Özil hefur ekki lagt upp eitt mark utan úrvalsdeildarinnar, hvorki í bikar, deildabikar né Meistaradeildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×