Kortafyrirtækið Borgun er metið á allt að 26 milljarða samkvæmt nýju virðismati sem endurskoðunarfyrirtækið KPMG hefur unnið fyrir stjórn Borgunar. Inni í efri mörkum virðismatsins eru þær tekjur sem yfirtaka Visa International Service á Visa Europe getur mögulega tryggt fyrirtækinu.
Greint er frá málinu í Morgunblaðinu í dag en eins og kunnugt er seldi Landsbankinn 31,2 prósent hlut sinn í Borgun í nóvember 2014 fyrir 2,2 milljarða. Sé tekið mið af virðismati KPMG er sá hlutur nú 4 til 6 milljarða virði en salan á honum fór ekki fram í gegnum opið útboð.
Þá voru í sölusamningi vegna viðskiptanna engin ákvæði um hlutdeild Landsbankans í þeim tekjum sem kæmu í hlut Borgunar yrði af yfirtöku Visa International á Visa Europe en þær eru taldar geta numið milljörðum. Landsbankinn tryggði sig hins vegar fyrir yfirtökunni þegar hann seldi hlut sinn í Valitor í desember 2014 og mun þá fá greiðslur í sinn hlut.
Sala Landsbankans á Borgun hefur sætt mikilli gagnrýni vegna þessa, og svo vegna þess að hlutur bankans var ekki seldur í gegnum opið útboð. Sé virðismat KPMG rétt hefur verðmæti hlutarins aukist um 4 til 6 milljarða króna á rúmu ári.
