Búið er að gefa út myndbönd við lagið, bæði á ensku og íslensku en myndböndin bæði má sjá hér fyrir neðan.
Höfundur lags og texta, Þórunn Erna, segir að laglína lagsins hafi komið til hennar þegar hún var að keyra.
„Ég fæ oft til mín laglínur sem láta mig ekki í friði,“ segir Þórunn Erna. „Í þessu tilviki var ég að keyra og greip símann við stýrið, sem er auðvitað alveg bannað, og tók upp viðlagslínuna.“
Nokkrum dögum síðar settist hún við píanóið og úr varð lagið Hugur minn er. Þórunn Erna mundi síðar eftir texta sem hún hafi áður samið sem smellpassaði við lagið.
Lagið er í flutningi Ernu Hrannar Ólafsdóttur og Hjartar Traustasonar en Þórunn Erna segir að hún hafi leitað að reynslumiklum söngvurum til að taka lagið að sér enda hafi reynsla hennar af Eurovision kennt henni að mikilvægt er að söngvararnir sem taki þátt ráði við álagið og þekki það hvernig er að syngja í sjónvarpi.
„Erna Hrönn er svo ótrúlega tónviss og með þennan fallega og skemmtilega pínu ráma tón,“ segir Þórunn Erna. „Hjörtur er auðvitað nýkrýndur sigurvegari the Voice Ísland og er með frábæra rokkrödd og tilfinningu sem hentar fullkomlega fyrir þetta lag.“
Myndbandið við lagið Hugur minn er
„Textar eru fyrir mér og mörgum alveg helmingur af mikilvægi laga og hvort maður tengi við þau eða ekki, þannig að enska útgáfan er tilbúin líka,“ segir Þórunn Erna en heyra má enska útgáfu lagsins hér fyrir neðan.