Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, segir að stór hluti starfsmanna Landsbankans upplifi vanlíðan við störf sín alla daga. Þetta sagði hann á þingi í dag þar sem hann ræddi um vantraust almennings á Landsbankanum og stjórnendum eftir fréttir af sölu Borgunar.
„Siðferðisbrestir í íslensku samfélagi eru sífellt meira áberandi og nánast áþreifanlegir í daglegu lífi okkar. Siðferði í stjórnkerfinu hrakar samkvæmt mælingum og þar ganga fremstir í flokki stjórnendur fjármálastofnana,“ sagði hann í ræðu sinni og vísaði annars vegar til sölu Arion banka á hlutum í Símanum og svo viðskipta Landsbankans með hluti í Borgun.
„Yfirmenn Landsbankans hafa ekki axlað ábyrgð á ófaglegum vinnubrögðum sem sköðuðu bankann sem kominn er í ruslflokk í augum fólksins í landinu. En bankinn þarf að spara til að ná til baka axarsköftunum í stjórn bankans og hvert lýta yfirmenn bankans þá? Jú þeir höggva á garðann þar sem hann er lægstur,“ sagði Ásmundur.
Tók hann dæmi af uppsögn spastísks manns úr útibúi bankans í Reykjanesbæ. Maðurinn, sem Ásmundur sagði að hefði verið nýkominn aftur til starfa í bankanum eftir að hafa lent í bílslysi, hafi verið látinn hætta; annaðhvort með því að skrifa undir starfslokasamning eða með uppsögn.
Ásmundur furðaði sig á þessu og sagðist hafa sent stjórn bankans erindi. „Ég sendi þá spurningu til stjórnar Landsbankans hvort ekki standi fyrir dyrum skipulagsbreytingar í efstu lögum bankans. Þar sitja stjórnendur sem eru rúnir öllu trausti almennings og stór hluti starfsmanna upplifir vanlíðan við störf sín alla daga,“ sagði hann á þinginu.
