Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair group sem á og rekur flugfélagið Icelandair, hefur tilkynnt samstarfsfólki sínu að það eigi von á 150 þúsund króna umbun vegna góðs reksturs félagsins undanfarin ár. Þetta kemur fram í tölvupósti sem Björgólfur sendi starfsmönnunum í morgun.
Forstjórinn segir að allir þeir sem starfað hafi hjá fyrirtækinu í fyrra í að lágmarki hálft ár fái bónusinn en greitt verði í samræmi við starfshlutfall.
Sjá einnig:Jólagjafir bankanna og annarra fyrirtækja
„Það er von okkar að þessi greiðsla fyrir vel unnin störf og góðan árangur verði hvatning til að gera enn betur á komandi misserum,“ segir í bréfi Björgólfs til starfsmanna.
Í umfjöllun Markaðarins í nóvember kom fram að um 4000 manns starfa hjá Icelandair eða tvöfalt meiri en eftir uppsagnir í kjölfar hruns bankanna á haustmánuðum 2008.
