Nýr safnstjóri tók við lyklunum að safngeymslum Listasafns Reykjavíkur í gær. Ólöf K. Sigurðardóttir tók þá formlega við sem safnstjóri þess víðfeðma safns af Hafþóri Yngvasyni sem gegnt hefur stöðunni síðustu tíu ár.
Ólöf hefur verið forstöðumaður Hafnarborgar, menningar- og listamiðstöðvar Hafnarfjarðar frá árinu 2008. Þar var hún listrænn stjórnandi og bar ábyrgð á sýningadagskrá og annarri faglegri starfsemi, ásamt fjármálum, rekstri og stjórnsýslu
Ólöf er samt ekki ókunnug Listasafni Reykjavíkur því hún var um árabil deildarstjóri fræðsludeildar þess og sat í sýningarnefnd auk þess að vera sýningarstjóri á annan tug sýninga
Listasafn Reykjavíkur er á þremur stöðum í borginni, Hafnarhúsi við Tryggvagötu, Kjarvalsstöðum á Klambratúni og Ásmundarsafni við Sigtún.

