Skoðun

Hverjir græða á ofurtollum á kjöti

Þórólfur Matthíasson skrifar
Það er mat þeirra sem til þekkja að innflutningstollar hækki verð á nauta-, svína- og kjúklingakjöti á bilinu 40% til 90%. Háir tollar veita innlendum framleiðendum skjól gagnvart innflutningi. Mjög mismunandi er hvernig skjólið nýtist einstökum framleiðslugreinum kjötvarnings.

Efnahags- og framfarastofnunin (OECD) í París safnar saman og birtir upplýsingar um áhrif stjórnvaldsaðgerða á markaðsverð landbúnaðarvarnings. Áhrif tolla á afkomu íslenskra bænda eru fundin með því að bera saman skilaverð til þeirra annars vegar og erlendra kollega hins vegar. Við skilaverðið til erlendra bænda er bætt flutningskostnaði til Íslands. Með þessum hætti fæst mat á hversu mikil áhrif tollarnir hafa á skilaverð til íslenskra bænda. Árið 2014 var staðan gagnvart Íslandi eins og lýst er í meðfylgjandi töflu.

Virk tollvernd ótrúlega mikil

Virk tollvernd er lítil eða engin þegar litið er til hefðbundinnar kjötframleiðslu. Afnám tolla á kjötafurðir myndi litlu breyta hvað varðar skilaverð til íslenskra bænda á þessum afurðum. Virk tollvernd er hins vegar ótrúlega mikil þegar litið er til hvíta kjötsins, kjúklinga- og svínakjöts. Samkvæmt tölum OECD nam umframkostnaður íslenskra neytenda vegna ofurtolla á kjúklinga- og svínakjöti 3,6 milljörðum króna árið 2014.

Ofurtollar á kjöti eru gjarnan rökstuddir með tilvísan til stuðnings við búsetu í dreifðum byggðum landsins. Því hefði að óreyndu mátt ætla að tollar hefðu mest áhrif á verð á lambakjöti og því næst á verð á nautakjöti. Megnið af framleiðslu svína- og kjúklingakjöts fer fram í póstnúmerum í ágætri nálægð við póstnúmer 101 og er ekki ýkja mannaflafrek. Hvort framleitt er tonninu meira eða minna af hvítu kjöti á Íslandi hefur hverfandi, ef nokkur, áhrif á búsetu í dreifðum byggðum landsins.

Er á valdi Alþingis

Ofurtollar á kjötvöru skila sér augljóslega ekki með skilvirkum hætti sem stuðningur við dreifðar byggðir. Það er í valdi Alþingis og ríkisstjórnar að breyta lögum og reglum um tolla á innfluttri kjötvöru. Það stendur því upp á þessa aðila að svara því hvort þeir vilji áfram stuðla að því að þvinga neytendur til að greiða 3,6 milljarða í yfirverð fyrir kjúklinga og svínakjöt.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×