„Þetta var svolítið skondið því þetta er ákveðin viðurkenning á því sem við erum að gera. Þeir vilja að við komum og veitum ráðgjöf og miðlum reynslu okkar í uppbyggingu á tónlistarskrifstofu. Það er pínu fyndið því okkar skrifstofa er pínulítil miðað við til dæmis norrænu tónlistarskrifstofurnar. Við höfum einhvern veginn meiri sýnileika á netinu og fólk er að taka vel eftir því sem við erum að gera,“ segir Sigtryggur Baldursson framkvæmdastjóri Útón.
Í bréfinu segir að mennta- og menningarmálaráð Kólumbíu hafi fylgst grannt með gangi mála í íslenskum tónlistarútflutningi og telja þeir Útón vera eina öflugustu tónlistarútflutningsskrifstofu í Evrópu. Ráðið vill fá ráðleggingar og að Útón miðli þekkingu sinni og reynslu í útflutningi tónlistar.

Ráðið vill að Sigtryggur ausi af sínum visku- og reynslubrunni og hefur boðið honum á ráðstefnu í Kólumbíu sem fram fer í október. „Mig hefur alltaf langað til þess að fara til Suður-Ameríku og ég ætla að þiggja boðið ef þetta passar inn í skipulagið hjá okkur. Ég er að fara í samnorræna viðskiptaferð til New York til að skoða mögulegt samstarf í byrjun október og svo er CMJ showcase fyrir íslenska tónlistarmenn einnig í New York í sama mánuði en vonandi smellur þetta og ég kemst út.“
Hópur af fólki í tónlist og viðskiptum í Chile er einnig að reyna að búa til sams konar skrifstofu þar í landi. „Það voru aðilar í Chile sem sendu okkur bréf á svipuðum tíma og von um ráðleggingar og aðstoð á sama sviði. Það er auðvitað smá montprik að vera beðinn um svona og að það sé frekar haft samband við okkur en ekki þessar stærri skrifstofur á Norðurlöndunum,“ segir Sigtryggur.