Það má segja að óperuveturinn á Íslandi skelli á strax í ágústlok en ævintýraóperan Baldursbrá eftir Gunnstein Ólafsson og Böðvar Guðmundsson verður frumflutt á sviði í Norðurljósasal Hörpu þann 29. ágúst. Baldursbrá var flutt á tvennum tónleikum sumarið 2014 og tilnefnd til Íslensku tónlistarverðlaunanna, fyrst íslenskra barnasöngleikja. En að þessu sinni er á ferðinni heilstæð sviðsuppfærsla og er sýningin samstarfsverkefni Litla óperukompanísins, Íslensku óperunnar og Hörpu.
Gunnsteinn Ólafsson segir að tónlistin í Baldursbrá byggi að hluta á íslenskum þjóðlögum, bæði rímnalögum og þulum, en einnig bregði fyrir rappi og fjörlegum dönsum. „Óperan segir frá Baldursbrá sem kynnist sposkum Spóa. Þau ákveða að fara saman upp á fjallstind til þess að njóta útsýnisins en það reynist ekki einfalt mál. Þau fá Rebba til að flytja blómið upp á efstu eggjar þar sem hræðilegur hrútur eigrar um í leit að æti. Yrðlingar Rebba reyna að fella Hrútinn en það reynist þeim þrautin þyngri. Líf Baldursbrár hangir á bláþræði og hún þarf að komast aftur heim í lautina sína sem fyrst. En hver kemur þá til bjargar?”
Söngvarar eru Fjóla Nikulásdóttir í hlutverki Baldursbrár, Eyjólfur Eyjólfsson í hlutverki Spóa, Jón Svavar Jósefsson er Rebbi, Davíð Ólafsson syngur Hrútinn og ellefu börn eru í hlutverki yrðlinga. 16 manna kammersveit leikur undir stjórn Gunnsteins Ólafssonar.
Leikstjóri sýningarinnar er Sveinn Einarsson, leikmynd gerir Sigurjón Jóhannsson, búninga hannar Kristina Berman og Messíana Tómasdóttir gerir grímur.
