Verkin sem ég er með eru mikið til unnin upp úr skissum, teikningum og einföldum grafík prentverkum sem ég hef verið að gera. Svo eru skúlptúrar sem eru svona soldið í anda fimmta áratugarins, „forties“-inspíreruð. Málið er að mig langaði til þess að gera bara svona klassíska myndlistarsýningu með stöplum og skúlptúrum og þetta er soldið þannig – nema bara með svona smá tvisti.
Hluti af því er líka að það eru þarna ákveðnar sögur sem eru gegnumgangandi og koma upp ítrekað í þessum verkum. Eitt af því sem hafði mikil áhrif á mig þegar ég var að vinna að þessum verkum er að á þessum tíma var ég að skoða bók eftir Gerði Helgadóttur og að vinna í járn og steinsteypu á sama tíma eftir pöntun. Ég kann að vinna í járn en hef aldrei nýtt þá þekkingu áður.

Helgi segir að á sýningunni sé líka ákveðið nýaldarstef sem hann hafi lengi verið hrifinn af. „Það eru pælingar og sögur í þessu nýaldardóti um framtíðarsýn og uppruna mannsins og svoleiðis. Þetta eru „space“-aðar og skemmtilegar hugmyndir sem er gaman að vinna með.“
Yfirskrift sýningarinnar er Benelux verkstæðið og Helgi segir að það megi rekja það til þess að hann sé að flytja til Hollands á næstunni. „Ég á félaga í myndlistinni sem búa í Belgíu og er sjálfur menntaður í Hollandi og er að fara að flytja þangað aftur með kærustunni núna á næstunni. Þá fannst mér tilvalið að þegar þar að kemur þá förum við í að stofna Benelux-hreyfinguna í myndlist. Mér finnst þetta líka bara svona skemmtilegt orð: Benelux. Þetta hefur heillað mig frá því í landafræðinni þegar ég var krakki.
Vandinn við sambandið er að það vantar Lúxemborg inn í þetta svo þetta geti talist Benelux. En planið er eiginlega að þaðan komi fjárfestarnir og kaupendurnir enda meira um bankamenn en myndlistarmenn í Lúxemborg.
En ég var í átta ár í námi á sínum tíma í Hollandi og hugurinn hefur oft leitað þangað í gegnum tíðina. Svo kom þetta upp frekar óvænt og það kemur eflaust bara eitthvað gott og skemmtilegt út úr því.“