Í síðasta þætti kenndi Eyþór áhorfendum að búa til girnilegt og saðsamt salat með grilluðum kartöflum og reyktri bleikju, grillaða samloku og ananas.
Allar uppskriftir eru fyrir 4.
Grillaðar kartöflur
2 stk. bökunarkartöflur
ólífuolía
sjávarsalt
svartur pipar úr kvörn
Skerið kartöflurnar í þunnar sneiðar og veltið þeim upp úr ólífuolíu og kryddið vel með salti og pipar. Setjið á heitt grillið og grillið í 5 mín. á hvorri hlið en snúið kartöflunum á grillinu í 180 gráður eftir 2 mín.
Takið kartöflurnar af grillinu og látið kólna.

Kapersdressing
100 ml ólífuolía
2 msk. dijon-sinnep
1 msk. hunang
2 msk. fínt skorinn rauðlaukur
2 msk. kapers
½ bréf gróft skorið dill
Sjávarsalt
Svartur pipar úr kvörn
Setjið ólífuolíuna, sinnepið og hunangið saman í skál og pískið saman í um 1 mín. Bætið restinni af hráefninu út í og smakkið til með saltinu og piparnum.
Meðlæti fyrir salat
2 stk. súrdeigbrauðsneiðar
Ólífuolía
1 stk. hvítlauksgeiri
½ sítróna
1 flak reykt bleikja
2 stk. soðin egg
8 stk. ferskur aspas
1 poki salat
Sjávarsalt
Svartur pipar
Penslið brauðið upp úr ólífuolíu og nuddið það vel með hvítlauk og sítrónu. Setjið brauðið á heitt grillið og grillið það þar til það er orðið stökkt.
Takið af grillinu og látið kólna og skerið í teninga.
Roðflettið bleikjuna og skerið hana niður í fallega strimla. Skerið eggin smátt niður. Veltið aspasnum upp úr ólífuolíu, kryddið hann til með salti og pipar og grillið í 2-3 mín. á hvorri hlið.
Raðið salatinu saman með kartöflunum og dreifið kapersdressingunni yfir.

Grilluð skinku- og ostsamloka með rauðlauks-relish
Rauðlauks-relish
2 stk. rauðlaukar
4 stk. súrar smágúrkur (smátt skornar)
Ólífuolía
Rauðvínsedik
3 msk. fínt skorinn graslaukur
2 msk. tómatsósa
1 msk. grófkornasinnep
Skerið rauðlaukana í tvennt og setjið á grillið með sárið niður og grillið í um 2 mín. Takið laukinn af grillinu og vefjið inn í álpappír ásamt um 2 msk. af ólífuolíu.
Setjið laukinn aftur á grillið og látið hann grillast í álpappírnum í 20 mín.
Takið laukinn af grillinu, skafið allt innan úr lauknum og setjið á skurðarbretti og skerið niður. Setjið laukmaukið í skál með öllu hinu hráefninu og smakkið til með saltinu og piparnum.
Hvítlaukssmjör/chili-smjör
100 g smjör við stofuhita
1 stk. hvítlauksgeiri
½ rauður chili
2 stilkar steinselja (má sleppa)
Setjið allt saman í matvinnsluvél og látið ganga í 1 mín.
Samlokan
8 stk. súrdeigsbrauðsneiðar
400 g rifinn Ísbúi
Eðalskinka
Íssalat
1 stk. lítill álbakki
Rífið ostinn og setjið hann á álbakka. Setjið álbakkann á grillið í 5 mín eða þar til osturinn er bráðnaður.
Á meðan osturinn er að bráðna penslið þið brauðið með hvítlaukssmjörinu og grillið í um 1 mín. á hvorri hlið.
Hellið svo ostinum yfir helminginn af sneiðunum (4 sneiðar) og raðið samlokunum saman.

Grillaður ananas með ritzkex-mulningi og rjóma
Grillaður og kryddsoðinn ananas
1 stk. ananas (afhýddur, skorinn í 4 hluta, kjarni fjarlægður)
250 g sykur
500 ml vatn
1 anísstjarna
1 kanilstöng
1 vanillustöng (fræin skafin úr)
1 kvistur mynta
2 stk. lime (safinn kreistur úr og hýðið raspað fínt af)
Grillið ananasinn í 5 mín. á hvorri hlið og setjið í álbakka. Brúnið sykurinn í potti og hellið vatninu yfir og sjóðið í um 5 mín. Takið pottinn af hellunni og bætið kryddi, lime-berkinum og safanum út í.
Hellið vökvanum yfir ananasinn og setjið bakkann á heitt grillið í um 15 mín. eða þar til ananasinn er orðinn mjúkur í gegn. Berið hann fram með ritzkex-mulningi og þeyttum rjóma
Ritzkexmulningur
250 g Ritzkex
50 g smjör (brætt)
2 msk. púðursykur
1 peli rjómi (þeyttur)
Malið kexið gróft niður og blandið því saman við sykurinn og smjörið. Setjið blönduna á bökunarplötu með bökunarpappír undir.
Bakið við 130 gráður í 20 mín. Látið kólna og myljið yfir ananasinn og rjómann.