Ef starfsfólk flugafgreiðslu semur ekki fyrir 31. maí koma gestir leikanna ekki til landsins. Verkfall þeirra er boðað ótímabundið frá 6. júní.
„Ef deilan leysist ekki fyrir 31. maí er tvísýnt um að fólk komist burt frá landinu eftir að leikum er lokið og ef það er staðan þá kemur fólk ekki. Það bíða hreinlega allir eftir því hvernig málin þróast,“ segir Líney og segir tjónið geta orðið mikið ef allt fer á versta veg.
„Það fer eftir því út úr hvaða skuldbindingum við getum komið okkur en heildarvelta leikanna er 500 milljónir.
Við reynum að halda haus en vissulega er þetta erfið bið því undirbúningur að leikunum hefur staðið yfir frá árinu 2013 og síðustu mánuði hefur hann verið stífur.“
Enginn gesta hefur afboðað komu sína vegna þeirrar óvissu sem ríkir. „Fólk fylgist vel með stöðunni og við reynum bara að vera bjartsýn.“
Verkföll standa yfir hjá hótelstarfsfólki 30. og 31. maí, Líney segist ekki telja að það verkfall hafi afgerandi áhrif á Smáþjóðaleikana. „Verkfallinu lýkur á miðnætti 31. maí, flestir gesta okkar koma á þeim degi. Það verður að koma betur í ljós hvaða áhrif það hefur.“
En er eitthvert plan B?
„Nei, það er í raun ekkert plan B. Ef verkfalli starfsfólks í flugafgreiðslu er ekki lokið þá verða leikarnir líklega felldir niður. Það er ekki hægt að fresta þeim. Hótelherbergi voru bókuð fyrir tveimur árum. Það er búið að leggja mikla vinnu í framkvæmd leikanna.“
Nokkrir punktar
- Smáþjóðaleikarnir eru haldnir 1.-6. júní.
- 1.200 gestir eru á leið til landsins, flestir þann 31. maí en nokkrir fyrr.
- Meðal gesta er Albert fursti af Mónakó.
- Verkfall starfsfólks í flugafgreiðslu hefst 6. júní og er ótímabundið.
- Verkfall starfsfólks rútufyrirtækja er boðað 28. og 29.maí.
- Verkfall hótelstarfsfólks er boðað 30. og 31. maí.