Síld og fiskur ehf. hefur sent Sigurði Inga Jóhannssyni, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, bréf þar sem skorað er á hann að sjá til þess að yfirdýralæknir eða sjálfstætt starfandi dýralæknir verði fenginn til starfa sem kjötskoðunarlæknir við slátrun grísa hjá fyrirtækinu í vikunni til að koma í veg fyrir að kjöt sem nemur 125.000 máltíðum verði urðað.
Bréfið var einnig sent á Eygló Harðardóttur, sem er starfandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra á meðan Sigurður Ingi er erlendis. Bréfið vísar til valds ráðherra til að beita sér með þessum hætti, samkvæmt lögum nr. 96/1997 um slátrun og sláturafurðir.
Ef ástandið helst óbreytt segir í bréfinu að Síld og fiskur muni þurfa að aflífa allt að 500 grísi í vikunni af dýravelferðarástæðum. „Þessir grísir gætu orðið uppistaða í 125.000 máltíðum en í staðinn enda þeir engum til gagns í fjöldagröfum á urðunarstöð Sorpu,“ segir í bréfinu.

