„Við viljum hressa fólk með góðri blöndu af vorvítamíni eftir langan og strangan vetur,“ segir Vigdís Hafliðadóttir hress um skemmtun Hamrahlíðarkóranna sem fagna sumri með söng í hátíðasal Menntaskólans í Hamrahlíð í dag, undir stjórn Þorgerðar Ingólfsdóttur. Fyrst klukkan 14 og aftur klukkan 16.
Efnisskráin á að vekja með öllum vorhug og gleði, að sögn Vigdísar. Hún segir þar blöndu gamalla gersema og nýrra, til dæmis sumar- og ættjarðarlög sem allir ættu að geta tekið undir.
Auk söngs og hljóðfæraleiks verður gestum boðið í dans við fjörugan leik salsabands og svo verður markaður í suðrænum stíl. Einnig verður bangsa- og dúkkuspítali, vísinda- og tilraunastofa, skátahorn og ljósmyndastofa.
Kór Menntaskólans við Hamrahlíð er nýkominn úr tónleikaferð um Suður- og Suðausturland og Hamrahlíðarkórinn, kór eldri nemenda, býr sig undir þátttöku í Europa Cantat, stærstu og viðamestu kórahátíð Evrópu í Ungverjalandi.
Á milli tónleikanna og á eftir verða seldar kaffiveitingar og ágóðinn rennur í ferðasjóð kóranna.
Vilja vekja vorhug og gleði gestanna
