Lífið

María verður berfætt í bleikum kjól

Adda Soffía Ingvarsdóttir skrifar
María segist ekki vera farin að finna fyrir stressi, enda sé hún með gott fólk í kringum sig.
María segist ekki vera farin að finna fyrir stressi, enda sé hún með gott fólk í kringum sig.
„Kjóllinn minn verður verður gylltur og antíkbleikur með pallíettum og tjulli,“ segir María Ólafsdóttir, fulltrúi Íslands í Eurovision 2015.

Það er Sunna Dögg Ásgeirsdóttir, systir Ásgeirs sem samdi lagið, sem hannar og saumar kjólinn.

„Hún gerði líka kjólinn fyrir undankeppnina. Hún er að gera fleiri kjóla á mig sem ég tek með mér, en ég þarf að hafa tvö dress á dag,“ segir hún og hlær. María ætlar að vera berfætt á sviðinu, líkt og í undankeppninni.

„Það er svo þægilegt og ég er miklu stöðugri á sviðinu. Ég mun hreyfa mig mun meira núna, þannig að það er enn þá þægilegra að ég sé á tánum.“ Þessa dagana er María á fullu að undirbúa atriðið. Henni til halds og trausts eru Eurovision-reynsluboltarnir Selma Björnsdóttir og Hera Björk Þórhallsdóttir.

„Hera er með mig á söngæfingum, en þar sem hún er úti í Síle þá æfum við í gegnum Skype.“ Selma aðstoðar Maríu við sviðsframkomuna, en hún lítur mikið upp til Selmu. „Hún var idolið mitt þegar hún var að keppa. Það er rosalega gott að hafa þær, en þær munu báðar koma með mér út. Ætli Eurovision-liðið úti tryllist ekki þegar þær mæta báðar?“ segir María og hlær.

Á næstu vikum kemur armband frá Jóni & Óskari í verslanir, sem Sunna Dögg hannaði einnig, og er sams konar og armbandið sem María mun bera í keppninni. Hún segist ekki finna fyrir stressi, en hún mun keppa á seinna kvöldinu. „Ég var smá skeptísk fyrst, þar sem við höfum alltaf verið á fyrra kvöldinu, en það er víst bara betra að þurfa þá ekki að bíða nema í tvo daga fram að stóru keppninni.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×