Rúmir þrír mánuðir eru síðan að Ísland tryggði sér þátttökurétt í keppninni, þann 6. september. Ísland varð aðeins þriðja þjóðin til að komast upp úr undankeppninni en næstu vikur og mánuði á eftir bættust 20 þjóðir við og hafa menn velt mögulegri niðurröðun í riðla fyrir sér síðan þá.
Í þeim hópi er þó ekki Heimir Hallgrímsson, annar landsliðsþjálfara Íslands. Hann hefur, eins og gefur að skilja, verið margspurður út í hvort hann eigi sér óskariðil. Fréttablaðið gerði slíkt hið sama í gær.
„Auðvitað verður spennandi að sjá hverjum við mætum en ég á mér enga óskamótherja. Það er kannski leiðinlegt svar en ég verð að vera heiðarlegur með það,“ sagði Heimir í léttum dúr. „Við tökum því sem höndum ber.“
Staðsetningin mikilvægari
Íslenski EM-hópurinn verður staðsettur í Annecy í austurhluta Frakklands, 50 þúsund manna bæ við Annecy-vatn, skammt frá landamærunum við Ítalíu og Sviss. Lyon og Saint-Etienne eru ekki langt undan en í kvöld kemur í ljós í hvaða borgum Ísland mun spila.
„Þetta snýst að stórum hluta um að fá að vita hvar við munum einmitt spila og hvort við þurfum að leggjast í löng ferðalög til að komast í leikina. Hverjum við mætum er svo aukaatriði,“ segir Heimir sem er nú ásamt Lars Lagerbäck, hinum landsliðsþjálfaranum, og fylgdarliði KSÍ staddur í Frakklandi.
Hann segist gera sér vel grein fyrir því að dagurinn í dag sé stór stund fyrir aðdáendur landsliðsins. „Þetta er risastórt dæmi og við fáum í dag rétt svo forsmekkinn af því hversu stórt þetta verður í sumar. Ég held að fólkið heima geri sér ekki almennilega grein fyrir hversu umfangsmikið þetta verður. Það er alveg ljóst að þetta mun vera mikil lyftistöng fyrir fótboltann á Íslandi og við munum vonandi fara vel með það.“

