Sveitarstjórn Skútustaðahrepps ákvað á fundi, sem var að ljúka, nafn á nýja hraunið sem myndaðist í eldgosinu norðan Vatnajökuls í fyrra. Niðurstaðan er að hraunið fær heitið Holuhraun. Þetta kom fram í viðtali við Yngva Ragnar Kristjánsson oddvita í hádegisfréttum Bylgjunnar.
Fjórar tillögur lágu fyrir um nafn; Flæðahraun, Holuhraun, Nornahraun og Urðarbruni. Við atkvæðagreiðslu í sveitarstjórninni fékk Holuhraun tvö atkvæði, Nornahraun eitt atkvæði og Urðarbruni eitt atkvæði. Einn hreppsnefndarmaður vék af fundi. Örnefnanefnd hafði mælt með nafninu Holuhraun.
Hreppsnefndin hyggst síðar velja nöfn á gíga og önnur ný náttúrufyrirrbæri sem mynduðust í eldgosinu.
