Í tölvupósti sem Ómar Örn Magnússon skólastjóri sendir til foreldra barna við skólann í dag kemur fram að nokkuð mörg börn í skólanum séu með leyfi frá foreldrum sínum. Það sé ákvörðun foreldra hvort þeir sæki um leyfi fyrir börn sín eins og fram hafi komið í tilkynningum frá yfirvöldum.
„ Hins vegar er sú staða komin upp að mörg börn vilja fara heim og hef ég fengið upplýsingar um að þau hafi verið að bera alls konar upplýsingar í foreldra. Það sem ég hef m.a. heyrt er að kennarar séu veðurtepptir heima hjá sér, að kennarar segi að nemendur megi fara heim, að allir í bekknum séu farnir heim o.sv.frv.“
Ómar Örn segir allt þetta rangt. Í Hagaskóla verði kennsla út daginn og forföll þess eina kennara sem sé veikur verði mönnuð. Nemendur sem ekki eru veikir eða með leyfi fái að sjálfsögðu skráða fjarvist.

Vísir fjallaði fyrr í dag um stöðu mála í Garðaskóla í Garðabæ þar sem kennari við skólann gagnrýnir foreldra harðlega.
„Er aumingjauppeldi orðið normið?“ spyr kennarinn Ragnheiður Stephensen sem telur um 75 prósent nemenda í 10. bekk vanta í skólann.
„Þeir sem eru mættir liggja núna í símunum og væla sig heim. Þau eru í prófum. Eru þetta skilaboðin sem á að senda starfskröftum framtíðarinnar? Ég treysti því að allir þessir foreldrar séu þá heima hjá sér líka fyrst að veðrið er svona vont!“