Rafmagnslaust varð í Vestur-Skaftafellssýslu út frá Prestbakka. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landsneti. Sigöldulína 4 og Prestbakkalína 1 leysti út.
Rafmagn datt fyrst út upp úr klukkan átta í kvöld en línan var spennusett aftur. Það leysti þó fljótlega út á nýjan leik og en klukkan níu var rafmagn komið á aftur.
Þá hefur Breiðadalslína 1 milli Mjólkárvirkjunar og Breiðadals við Önundarfjörð verið tekin úr rekstri til að auka afhendingaröryggi rafmagns á norðanverðum Vestfjörðum. Norðanverðir Vestfirðir fá nú rafmagn frá vararafstöð í Bolungarvík.
Að öðru leyti hafa ekki orðið teljandi vandræði í meginflutningskerfi Landsnets en rafmagnstruflanir hafa orðið hjá dreifiveitu á Suðurlandi. Viðgerðar- og viðbragðshópar frá Landsneti eru nú í startholunum á Geithálsi, Brennimel, Kolviðarhól, Sultartanga og víðar á Suðurlandi, í Fljótsdal og víðar á Austurlandi og í Varmahlíð í Skagafirði. Einnig er Landsnet í samstarfi um fyrsta viðbragð við dreifiveitur og verktaka auk þess sem raforkuframleiðendur, veitur og stórnotendur eru einnig með aukinn viðbúnað vegna óveðursins. Þá er fylgst grannt með gangi mála í stjórnstöð Landsnets í Reykjavík og einnig er maður frá Landsneti staðsettur í upplýsingamiðstöð Almannavarna í Skógarhlíð.
Uppfært klukkan 21.08 eftir að rafmagn komst aftur á.
Rafmagnslaust var Vestur-Skaftafellssýslu
Aðalsteinn Kjartansson skrifar
