Einhverjar tafir og raskanir hafa orðið á akstri Strætisvagna Akureyrar í morgun vegna ófærðar í bænum. Snjó kyngdi niður á Akureyri í nótt og víðar fyrir norðan og er víða í hliðargötum nánast ófært fyrir fólksbíla.
Í dag verður norðlæg átt, 5-13 m/s og víða él, en snjómugga um tíma SV-til, en lægir og rofar til í kvöld. Vaxandi austanátt í nótt, 15-25 og snjókoma eða skafrenningur um hádegi, hvassast við SV-ströndina. Mun hægari SV-átt og úrkomuminna S- og V-lands annað kvöld. Frost víða 1 til 8 stig, en hlánar við S-ströndina á morgun, að því er segir á vef Veðurstofunnar.
Enn er lokað um Siglufjarðarveg og Ólafsfjarðarmúla vegna snjóflóða og snjóflóðahættu. Ekki hafa borist fregnir af snjóflóðum í nótt. Þá telur Veðurstofan mikla snjóflóðahættu vera á utanverðum Tröllaskaga þar sem mikið er af nýföllnum og óstöðugum snjó. Jafnframt er talin töluverð hætta á norðanverðum Vestfjörðum og nokkur hætta á Austfjörðum.