Kristín Þorsteinsdóttir, aðalritstjóri Fréttablaðsins, segir ekkert í forsíðufrétt blaðsins í gær sem gefi ástæðu til að bera efnisatriði þar til baka. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá henni.
Fréttin, sem bar fyrirsögnina „Íbúð í Hlíðunum útbúin til nauðgana,“ vakti mikla athygli en í henni er fjallað um meint kynferðisbrot sem eiga að hafa átt sér stað í íbúð í Hlíðunum. Um tvö aðskilin mál er að ræða þar sem tveir menn hafa verið kærðir fyrir nauðgun.
Síðdegis í gær sendi lögreglan svo frá sér tilkynningu vegna málsins þar sem fram kom að „sumt í umfjöllun fjölmiða er ekki í samræmi við fyrirliggjandi rannsóknargögn lögreglu.“
Þetta útskýrði Alda Hrönn Jóhannsdóttir, yfirlögfræðingur hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, síðar um daginn og sagði að ekki hafi verið rétt að íbúðin hafi verið „sérútbúin.“ Um þetta segir aðalritstjóri Fréttablaðsins:
„Það sem yfirlögfræðingur á skrifstofu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu hefur við hana að athuga er, að sagt sé að íbúðin hafi verið „sérútbúin“ eins og lögfræðingurinn orðar það. Hvergi er það orð að finna í frétt okkar, hvorki í gær né í fyrri fréttum um málið. Fréttablaðið hefur staðfestar heimildir fyrir því, að tól og tæki í íbúðinni hafi verið gerð upptæk. Það sem skiptir máli er, að kærur, sem staðfesta fréttirnar, eru komnar fram.“
Fram kom í viðtali við Vilhjálm H. Vilhjálmsson, hæstaréttarlögmanns, í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun að hann hefur sent kröfubréf á Kristínu Þorsteinsdóttur fyrir hönd þeirra kærðu í málinu. Þar er gerð krafa um leiðréttingu fréttarinnar og afsökunarbeiðni auk þess sem mennirnir fara hvor um sig fram á 10 milljónir króna í miskabætur.
Fréttablaðið stendur við forsíðufrétt gærdagsins

Tengdar fréttir

Segir ekki refsivert að eiga tæki og tól
Yfirlögfræðingur lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu segir farbanni sjaldnast beitt gegn íslenskum ríkisborgurum. Tveir menn sem grunaðir eru um kynferðisbrot eru taldir vera farnir úr landi.

Íbúð í Hlíðunum var útbúin til nauðgana
Tveir karlar grunaðir um hrottaleg kynferðisbrot ganga lausir.

Þótti ekki ástæða til að fara fram á gæsluvarðhald yfir sakborningum
Hart deilt á lögregluna vegna ákvörðunarinnar.

Birtir myndband úr íbúð meints nauðgara í Hlíðunum
Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, hæstaréttarlögmaður, birti í nótt myndband á Facebook-síðu sem hann segir að sé úr íbúð í Hlíðunum þar sem þar sem talið er að tvær árásir í tveimur að aðskildum kynferðisbrotamálum hafi átt sér stað.