96,25 prósent þeirra sem greiddu atkvæði um nýjan kjarasamning Sjúkraliðafélags Íslands við ríkið samþykktu hann í atkvæðagreiðslu sem lauk síðdegis í dag.
Sjúkraliðafélag Íslands (SLFÍ) hefur samþykkt nýjan kjarasamning við ríkið í atkvæðagreiðslu félagsmanna. Alls greiddu 59,9 prósent þeirra sem voru á kjörskrá atkvæði. Af þeim sem greiddu atkvæði sögðu 96,25 prósent já en 3,30 prósent höfnuðu samningnum. Þrír seðlar voru ógildir.
„Niðurstaðan kom mér ekki á óvart með tilliti til þeirra funda sem ég hef átt með félagsmönnum vítt og breitt og landið þegar við vorum að kynna fundinn,“ sagði Kristín Á. Guðmundsdóttir formaður SLFÍ í samtali við Vísi.
SLFÍ er þar með fyrsta aðildarfélag BSRB sem samþykkir nýjan kjarasamning við ríkið. Sjúkraliðafélagið, SFR - Stéttarfélag í almannaþjónustu og Landssamband lögreglumanna gerðu nýjan kjarasamning við ríkið þann 28. október sl.
Frestur félagsmanna SFR til að greiða atkvæði um nýjan kjarasamning rennur út á mánudaginn en hann var framlengdur vegna tæknilegra örðugleika.
Atkvæðagreiðsla um nýjan kjarasamning Landssambands lögreglumanna hófst í dag og mun henni ljúka um miðja næstu viku. Niðurstaða þeirrar atkvæðagreiðslu ætti að vera ljós á miðvikudag, 18. október.

