Augu heimsbyggðarinnar beinast nú að Parísarborg þar sem að minnsta kosti 128 liggja í valnum eftir stærstu hryðjuverkaárás í Evrópu síðan árið 2004.
Allir helstu fjölmiðlar heims fylgjast grannt með gangi máli en margt er enn á huldu um árásina og heimildum ber ekki saman um hverjir standa að baki árásinni.
Sjá einnig: Hryllingur í París: 120 látnir og 200 særðir eftir sprengju- og skotárásir víðsvegar um borgina
Frakklandsforseti sagði þó í ávarpi nú fyrir skömmu að „barbarískir ISIS-menn“ hefðu framið verknaðinn sem hefur vakið óhug, en jafnframt samstöðu, um allan heim.
Hér að ofan má sjá forsíður franskra fjölmiðla sem eru allar á einn veg. „Hryllingurinn“ eða „L‘Horreur“ er hugtak sem er mörgum þeirra tamt.

