Eru þetta verstu hryðjuverkaárásir í Evrópu síðan árið 2004 þegar 191 lést í mannskæðum hryðjuverkarárásum í Madrid. Alls réðust minnst átta árásarmenn á sex staði víðsvegar um París fyrir miðnætti í gærkvöldi en fyrstu fregnir bárust á tíunda tímanum.
Francois Hollande Frakklandsforseti segir að ISIS standi á bak við hryðjuverkaárásirnar í París, þær hafi verið skipulagðar og samhæfðar utan Frakklands með hjálp manna innan landsins.
Samtökin ISIS hafa jafnframt lýst yfir ábyrgð á hendur sér vegna hryðjuverkaárásanna í Frakklandi í gærkvöldi. Samtökin segja að Frakkland sé helsta skotmark ISIS og að árásirnar í gær séu einungis upphafið. Í yfirlýsingu frá samtökunum segir að árásirnar hafi verið ISIS vegna móðgana á hendur Múhameðs og loftárása Frakka á landssvæði undir tangarhaldi ISIS.
Bataclan-tónlistarhúsið miðpunktur árásanna
Stærstur hluti hinna látnu var myrtur í árás sem gerð var á Bataclan-tónlistarhúsið, þar létust minnst 87 tónleikagestir en um 1.200 manns voru staddir á tónleikum Eagles of Death Metal.
Gíslatökuástand myndaðist um stund en það varði skammt. Vitni segja frá því að mennirnir hafi hafið aftökur á fólki hið snarasta áður en að lögregla réðst til atlögu um klukkan eitt í nótt.
Kort af árásarstöðunum
Einnig sprungu sprengjur í grennd við Stade de France, þjóðarleikvang Frakka þar sem landslið þeirra atti kappi gegn við Þjóðverja. Greinilega mátti heyra sprengingar í sjónvarpsútsendingum frá leiknum.
Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni í París voru árásirnar gerðar með skömmu millibili, sú fyrsta klukkan 22.20 og sú síðasta klukkan 23.00 að íslenskum tíma.
The timeline of yesterday's seven attacks in #Paris according to police source of @leJDD pic.twitter.com/mosZbJqjDL
— Agnes Poirier (@AgnesCPoirier) November 14, 2015
Árásirnar virtust skipulagðar og til þess ætlaðar að skapa sem mestan glundroða. Þeim var öllum beint gegn vinsælum stöðum sem almenningur sækir en ekki gegn sendiráðum eða embættisbyggingum.
Tala látinna
- Bataclan-tónlistarhúsið - 87 látnir
- Stade de France - tala látinna liggur ekki fyrir
- Boulevard de Charonne - 18 látnir
- Boulevard Voltaire - einn látinn
- Rue de la Fontaine-au-Roi - fimm látnir
- Rue Alibert - 14 látnir
Allir skólar, söfn, kaffihús, verslanir og hvers kyns þjónusta í borginni mun vera lokuð í dag. Íbúar Parísar hafa verið beðnir um að halda sig innandyra á meðan í ljós kemur hver staðan er.