Stóra stundin rann upp á Laugardalsvellinum sunnudagskvöldið 6. september síðastliðinn þegar markalaust jafntefli á móti Kasakstan kom karlaliði Íslands á EM í fyrsta sinn. Íslenska landsliðið var þá taplaust í sjö leikjum ársins og var að halda hreinu í þriðja sinn í fjórum leikjum undankeppninnar á árinu 2015. Íslensku strákarnir fögnuðu vel í leikslok en þeir hafa ekki fagnað síðan.
Íslenska landsliðið hefur ekki unnið í þremur leikjum í röð og tveir þeir síðustu hafa tapast. Allir eiga það sameiginlegt að góð staða í hálfleik hefur runnið út í sandinn í þeim seinni. Íslenska liðið sem fékk aðeins á sig í eitt mark í fyrstu fjórum mótsleikjum sínum á árinu 2015 hefur fengið á sig sjö mörk í seinni hálfleik á þessum þremur leikjum á móti Lettlandi (2), Tyrklandi (1) og Póllandi (4).
Ísland var 2-0 yfir í hálfleik á heimavelli á móti Lettlandi en missti þann leik niður í jafntefli. Liðið fékk á sig sigurmark í lokin í lokaleik undankeppninnar úti í Tyrklandi og Pólverjar skoruðu síðan fjögur mörk á síðustu 40 mínútunum leik liðanna í Varsjá á föstudaginn.

Það fylgir þó stöðunni að hér gæti munað miklu um landsliðsfyrirliðann Aron Einar Gunnarsson, sem er að margra mati mikilvægasti leikmaður íslenska liðsins. Brimbrjóturinn á íslensku miðjunni stöðvar ófáar hraðar sóknir mótherjanna og hann var hvorki inni á vellinum þegar liðið fékk á sig tvö mörk í seinni hálfleik á móti Lettum (leikbann) né þegar íslenska vörnin fékk á sig fjögur mörk í seinni á móti Pólverjum (fór af velli í hálfleik).
Það mætti því kannski frekar bera saman gengi liðsins þegar Aron Einar er inná og þegar hans nýtur ekki við. Frammistaða liðsins í fyrri hálfleik er aftur á móti til mikillar fyrirmyndar og vísbending um gott skipulag og einbeitingu landsliðsmanna í upphafi leikja.
Heilt yfir hefur íslenska liðið verið magnað í fyrri hálfleikjum tíu fyrstu landsleikja ársins enda markatalan fyrstu 45 mínútur leikjanna 8-1 íslenska liðinu í vil. Eina markið sem Ísland hefur fengið á sig í fyrri hálfleik á árinu skoruðu Kanadamenn úr vítaspyrnu í vináttuleik þjóðanna í Orlando í janúarmánuði.
Aron Einar Gunnarsson getur ekki tekið þátt í leiknum í dag vegna meiðsla og það mun reyna á íslensku miðjuna að verja varnarlínuna í kvöld. Það hlýtur að vera mikilvægt fyrir strákana að enda sögulegt ár á skemmtilegan hátt. Góður varnarleikur í seinni hálfleik gæti þar gert útslagið.