Það var höfðinglega tekið á móti nýju flugvélinni þegar hún lenti í fyrsta skipti á Reykjavíkurflugvelli í dag og sprautað var yfir hana úr tveimur slökkviliðsbílum flugvallarins í heiðursskyni. Þetta er fjórða Jetstrem skúrfuþotan í flota flugfélagsins.
Ernir flýgur á fimm áfangastaði á landinu en mest fjölgun flugferða og farþega hefur verið til Húsavíkur eða um 40 prósent, aðallega vegna aukins ferðamannastraums og síðan stóriðjuframkvæmdanna við Bakka. Þá hefur flugferðum verið fjölgað um 30 prósent til vestmannaeyja og farþegum hefur fjölgað á aðra áfangastaði félagsins.
Húsavíkurflugvöllur var lokaður lengi áður en Ernir hófu þangað áætlunarflug með sex ferðum á viku.

Húsavíkurflugvöllur var lengi lokaður. Hvernig er ástand hans núna?
„Því miður er ástand flugvalla almennt ekki í nógu góðu lagi,“ segir Hörður og vísar þá bæði til ástands flugbrauta og nauðsynlegs aðflugsbúnaðar.
Viðhald flugvalla hefur setið á hakanum hjá stjórnvöldum árum saman og þrátt fyrir aukið framlag á þessu ári hefur lítið gerst.
„Ég hef farið víða og flogið víða um heim. Sumstaðar er ástandið orðið verra heldur en í lökustu þriðjaheims löndum,“ segir Hörður sem á áratuga reynslu að baki í flugi á Íslandi og víða um heim.
Hann segir mikinn uppgang hjá Erni eins og kaup félagsins á nýju flugvélinni sé til vitnis um. En ástand flugvallanna komi niður á þeirri þjónustu sem félagið gæti veitt til að mynda á Húsavík.
„Já, það er allt of oft sem við þurfum að lenda á Akureyri með okkar farþega og aka þeim yfir. Það er mikill kostnaður því samfara. Áætlanaflugvellir eiga að vera með lágmarks búnaði. Varðandi aðflugsbúnað þá er hann í mjög slöku ástandi eins og t.d. á Húsavík. Það er alveg bráðnauðsynlegt að bæta þar úr,“ segir Hörður.