Reykvíkingum er hollast að draga fram úlpurnar fyrir komandi helgi því gert er ráð fyrir allt að tíu stiga frosti á sunnudagskvöld samkvæmt spákorti Veðurstofu Íslands. Þar á bæ fengust þær upplýsingar að ekki sé hægt að ganga að því vísu að frostið fari niður í tíu gráður en engu að síður sé þetta það kaldasta sem sést hefur í spám Veðurstofunnar í haust.
Á laugardag má gera ráð fyrir köldu veðri og snjókomu á norðanverðu landinu en aðfaranótt sunnudags verður komið frost um allt land.
Veðurhorfur næstu daga samkvæmt textaspá Veðurstofu Íslands:
Á fimmtudag:
Hæg norðlæg átt og úrkomulítið snemma dags. Vaxandi austlæg átt þegar líður á daginn, víða 10-15 m/s undir kvöld og rigning um landið sunnanvert. Hiti 0 til 6 stig. en sums staðar vægt frost til landsins.
Á föstudag:
Fremur hæg suðlæg átt og skúrir eða slydduél, en þurrt og bjart veður á N- og A-landi. Hiti 0 til 6 stig. Gengur í hvassa norðanátt með slyddu eða snjókomu NV-til um hádegi.
Á laugardag:
Allhvöss norðanátt og kólnandi veður með snjókomu eða éljum, en að mestu þurrt S-til.
Á sunnudag:
Minnkandi norðanátt þegar líður á daginn. Él norðanlands, en bjartviðri syðra. Kalt í veðri.
Á mánudag:
Útlit fyrir þurrt og kalt veður, en él vestast.
