„Ef ríkið yfirtekur Íslandsbanka þá mun þetta vonandi hjálpa stjórnvöldum við að bæta fjármálakerfið og koma landinu úr greipum vaxtaokurs og verðtrygginga, eins og verið er að vinna að,“ sagði Sigmundur í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni.
„Það voru mikil mistök að okkar mati á sínum tíma hvernig nýju bankarnir voru afhentir kröfuhöfunum og hefur gert okkur að margan hátt erfitt fyrir. Nú er það að miklu leyti að ganga til baka og má segja að það sé verið að laga mistök fortíðar,“ bætti hann við.
Sigmundur segir jafnframt mikilvægt að sett verði á ákveðin eigendastefna, „Ef að til þess kemur að ríkið selji hlutdeild í þessum böndum að þá sé verið að selja það inn í fjármálakerfi sem sé búið að ganga í gegnum þær endurbætur sem eru svo knýjandi. Ríkið hefur þrátt fyrir allt ákveðna eigendastefnu sem bankarnir eiga að starfa eftir, en það hefur verið erfitt að setja á nýja eigendastefnu á meðan þessir nýju bankar hafa verið í því hlutverki að vinna fyrir kröfuhafana. Það verður hins vegar miklu þægilegra þegar því uppgjöri öllu er lokið.“
Þá segir hann þessar nýju tillögur skref í rétta átt. „Skref sem vekja undrun og umtal erlendis og hafa hjálpað okkur að komast á þennan stað, þar sem við stöndum efnahagslega betur – og þróun hefur verið betri en í nágrannalöndunum.“
Tillögur kröfuhafa Glitnis um að ríkið eignist Íslandsbanka hafa vakið mikla athygli í dag en fjármálaráðuneytið setti frétt þess efnis inn á vef sinn um klukkan fjögur í nótt. Voru tillögurnar meðal annars ræddar á Alþingi og nokkuð bar á gagnrýni vegna málsins stjórnarandstöðumegin.
Sigmundur segist hafa átt von á meiri gagnrýni. „Eins og stjórnmálin eru þá eiga menn mjög erfitt með að vera nokkurn tímann sáttir við það sem stjórnvöld eru að gera, í stjórnarandstöðunni. Hins vegar hefur mér þótt það hjákátlegt og eiginlega vandræðalegt þegar stjórnmálamenn sem stóðu ekki aðeins að því að gefa bankana kröfuhöfunum heldur ætluðu líka að skella nokkur hundruð milljarða skuld á almenning, borga vangoldnar skuldir einkabankana, að þeir stígi nú fram og segja að það sé alveg ómögulegt að það sé ekki meira að gert, og byggja það auk þess á fullkomnum misskilningi.“
Heyra má viðtalið við Sigmund í spilaranum hér fyrir neðan.