„Ég get staðfest að ég sendi bréf á einn yfirlækni. Nánar get ég ekki farið út í þau mál,“ segir Svanhvít Jakobsdóttir, forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.
Gunnari Inga Gunnarssyni yfirlækni heilsugæslunnar í Árbæ barst umrætt bréf í fyrradag þar sem hann var áminntur vegna framgangs í verkfalli móttökuritara stöðvarinnar. Honum gæti verið sagt upp vegna málsins.
Framganga Gunnars kom til vegna þess að honum fannst stéttum vera mismunað í verkfalli, að læknar og hjúkrunarfræðingar hafi fengið meiri skilning frá yfirstjórn heilsugæslunnar í sínu verkfalli.
Framkvæmdastjóri SFR hefur tekið undir þær skoðanir. Þá hafa starfsmenn heilsugæslunnar sagst styðja Gunnar. Ljóst sé að fleiri hætti verði hann látinn fara.
Svanhvít segir skyldu heilsugæslunnar að veita eins mikla þjónustu og hægt sé í erfiðum aðstæðum.
„Við lokuðum ekki heilsugæslustöðvunum í verkfalli lækna og við gerðum það heldur ekki núna,“ segir hún. „Þjónustan var aftur á móti verulega skert.“
Svanhvít segir móttökuritara ekki á undanþágu sem takmörkuð sé við bráðatilfelli.
„Við höfum eingöngu unnið í samræmi við þann ramma sem fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur sett varðandi framkvæmd verkfalla. Starfsmaður á undanþágu vinnur samkvæmt sinni starfslýsingu.“
Þjónusta á eins og mögulegt er

Tengdar fréttir

Móttökuritarinn í Árbæ: Við sýnum yfirlækninum fullan stuðning
Segir að starfsmenn muni fylgja yfirlækninum, verði hann látinn fara.

Yfirlækni hótað uppsögn fyrir að styðja verkfall
Gunnar Ingi Gunnarsson, yfirlæknir á Heilsugæslunni í Árbæ, sendi bréf til starfsmanna heilsugæslunnar í aðdraganda verkfalls ritara stöðvarinnar.

Heilsugæslan sögð sýna stéttinni fádæma virðingarleysi
Ágreiningur er á milli SFR og Heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu um hvað felist í undanþágu–lista móttökuritara.