Guðbjörg Gunnarsdóttir, markvörður íslenska kvennalandsliðsins, staðfesti það á Instagram síðu sinni og fésbókinni í dag að herbergisfélagi hennar í A-landsliðinu til margra ára, Hólmfríður Magnúsdóttir, spili á móti Slóveníu í dag.
Hólmfríður hefur verið að glíma við meiðsli á hné og var af þeim sökum ekki með íslenska liðinu í sigrinum á Makedóníu fyrir helgi. Hólmfríður hefur verið í kapphlaupi um að ná leiknum og hún er leikfær sem eru miklar gleðifréttir fyrir íslenska liðið.
Hólmfríður hefur spilað frábærlega með norska liðinu Avaldsnes á þessu tímabili og er ein af þremur sem kemur til greina sem besti leikmaður deildarinnar.
Avaldsnes hefur skorað 15 mörk í 22 leikjum í deild og bikar á leiktíðinni en liðið endaði í 2. sæti deildarinnar á eftir Guðbjörgu Gunnarsdóttur og félögum í Lilleström.
Hólmfríður hefur spilað 99 A-landsleiki fyrir Ísland og leikurinn í kvöld verður því hennar hundraðasti.
Hólmfríður hefur þegar skorað 36 mörk fyrir íslenska landsliðið og annar markahæsti leikmaður Íslands frá upphafi á eftir Margréti Láru Viðarsdóttur.
Hólmfríður lék sinn fyrsta landsleik á móti Bandaríkjunum 16. febrúar 2003 og það er óhætt að segja að hún hafi byrjað á móti þeim bestu. Leikurinn fór fram í Charleston í Bandaríkjunum og þær bandarísku unnu 1-0 með marki Miu Hamm strax á þriðju mínútu.
Hólmfríður kom inná sem varamaður fyrir Rakel Logadóttur á 65. Mínútu. Tvær aðrar léku einnig sinn fyrsta landsleik í þessum leik en það voru þær Íris Andrésdóttir og Málfríður Erna Sigurðardóttir , nýkrýndur Íslandsmeistari með Breiðabliki.
Hólmfríður spilar sinn hundraðasta A-landsleik í dag
Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
