„This conversation is missing a point er kómískt dansverk, ekkert drama heldur létt og skemmtilegt, enda erum við Berglind báðar algerir trúðar í okkur,“ segir Unnur Elísabet og tekur fram að bullmál sé notað í sýningunni og því henti hún jafn vel fyrir útlendinga og Íslendinga.

Unnur Elísabet telur víst að fólk skilji það í hreyfingum þeirra Berglindar sem þær vilja segja með orðum.
„Við kunnum best að tjá tilfinningar okkar með hreyfingum. Okkur finnst það auðveldasta tjáningarformið. Við erum búnar að fá nokkra leikara á æfingar og þeir hafa hlegið þvílíkt og skemmt sér. Þetta verk er um fólk af báðum kynjum sem til dæmis á erfitt með að halda ræður, byrjar að stama í míkrafóninn og allt fer í rugl, þannig að þetta er bara algerlega „missing a point“.“
Þær Unnur Elísabet og Berglind hafa báðar verið í Íslenska dansflokknum. Nú eru þær bæði sjálfstætt starfandi og að vinna hjá öðrum, Unnur Elísabet er til dæmis í Borgarleikhúsinu í Billy Elliot og Berglind er að kenna. Báðar verða þær svo líka í Mamma mía.
Aðrar sýningar á This conversation is missing a point eru 11. og 17. nóvember. Aðeins er um þessar þrjár sýningar að ræða.