Starfið fer fram í skugga þess að kjaraviðræður þriggja stærstu aðildarfélaga BSRB við ríkið hafa siglt í strand og verkfall verið samþykkt frá og með miðjum október hjá sjúkraliðum og félögum SRF.

Í viðleitni til að stöðva þessa hringrás áður en í óefni sé komið, hafi forystumenn heildarsamtaka á vinnumarkaði reynt að ná samstöðu um ramma að þróun kjaramála. „Byggt á reynslu félaga okkar á Norðurlöndunum er nokkuð almennur skilningur á meginútlínum slíks samningalíkans.“ Gylfi bendir á að á hinum Norðurlöndunum hafi lausnin reynst vera að jafna lífeyrisréttindi og tryggja opinberum starfsmönnum sambærilega launaþróun að teknu tilliti til launaskriðs.

„Þess vegna er mjög rík skylda á aðilum að setjast yfir þetta sameiginlega, bæði hvernig við leysum bráðavandann nú varðandi misræmi í launaþróun og hvernig við getum mögulega nýtt lífeyrismálin og samræmingu þeirra til þess að vinna með okkur,“ segir hann. Um leið þurfi að vinna nýtt vinnumarkaðslíkan til þess að koma í veg fyrir að svona staða endurtaki sig.
Norræna leiðin
Í grófum dráttum gengur norræna nálgunin að kjarasamningum út á að í upphafi koma aðilar hins almenna vinnumarkaðar sér saman um hvaða svigrúm sé til launahækkana í samfélaginu og er þá miðað við stöðu helstu útflutningsatvinnuvega, hagvöxt og efnahagshorfur. Í framhaldi af því ljúka félögin á almenna markaðnum samningum. Ári síðar eru svo lausir samningar hjá hinu opinbera og miða þeir við sömu stærðir, en opinberi markaðurinn nýtur svo jafnframt tryggingar verði launaskrið á almenna markaðnum þannig að opinberir starfsmenn sitji ekki eftir.