„Ég er hæstánægður með þessi verðlaun og það er gaman hvað íslenskum kvikmyndum gengur vel þessa dagana,“ segir Grímur Hákonarson.
Kvikmynd hans, Hrútar, vann um helgina „Gullna augað“ á kvikmyndahátíðinni í Zürich í Sviss. Þetta eru aðalverðlaunin í flokki alþjóðlegra kvikmynda í fullri lengd en alls tóku fimmtán myndir þátt í keppninni.
Grímur var viðstaddur verðlaunaafhendinguna í Zürich og tileinkaði verðlaunin íslenskri kvikmyndagerð sem er á góðum skriði þessa dagana, en um síðustu helgi vann kvikmynd Rúnars Rúnarssonar, Þrestir, aðalverðlaunin á San Sebastian.

