Eins og fram kom á Vísi fyrr í dag er Ásmundur Arnarsson tekinn við þjálfarastarfinu hjá Fram.
Fram verður þriðja liðið sem Ásmundur stýrir á þessu ári en hann tók við ÍBV um mitt sumar eftir að hafa verið sagt upp störfum hjá Fylki. Ásmundur sá sér hins vegar ekki fært að halda áfram sem þjálfari ÍBV og er nú kominn á fornar slóðir en hann lék um tíma með Fram og er níundi markahæsti leikmaður félagsins í efstu deild frá upphafi.
Í samtali við Arnar Björnsson í kvöldfréttum Stöðvar 2 sagði Ásmundur að þetta hefði ekki átt sér langan aðdraganda.
„Nei, ekkert sérstaklega langan. Ég var bara að einbeita mér að því að klára síðasta verkefni í Eyjum en ég heyrði af áhuganum héðan aðeins áður en mótinu lauk,“ sagði Ásmundur sem skrifaði undir þriggja ára samning við Fram.
Hans bíður erfitt verkefni en Fram var nálægt því að falla í 2. deild í haust eftir vont tímabil. Ásmundur tekur við starfinu af Pétri Péturssyni sem stýrði Fram lengst af í sumar eftir að Kristinn Rúnar Jónsson dró sig í hlé í vor.
„Það sjá það allir að þróun félagsins undanfarin tvö ár hefur ekki verið nægjanlega góð. Nú er ætlunin að bretta upp ermar og reyna að snúa þessu dæmi við,“ sagði Ásmundur en viðtalið í heild sinni má sjá í spilaranum hér að ofan.
