Innlent

Sundspretturinn 260 prósent dýrari en 2005

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Aðgöngumiðar í sundlaugar í Reykjavík munu hækka um nærri fjörutíu prósent næstu mánaðarmót. Formaður ÍTR segir rekstur sundlauganna engan veginn standa undir sér, meðal annars vera vegna launahækkana starfsfólks. Sundlaugargestir eru missáttir við hækkunina.

Borgarráð samþykkti á fundi sínum í gær að hækka verð á stökum sundmiða fyrir fullorðna úr 650 krónur í 900 næstu mánaðarmót, en hækkunin er liður í fyrstu skrefum aðgerðaráætlunar borgarráðs í fjármálum.  

Þórgnýr Thoroddsen, formaður ÍTR, segir nýgerða kjarasamninga hafa sett strik í reikninginn og að markmiðið sé ná frekari tekjum úr sundlauginni. 

„Það var ófyrirséður stór biti sem sveitarfélögin þurfa nú að taka inn í reikningsdæmið. Hækkunin er mikil en við ákváðum að fara þessa leið til að hækka bara einstaklingsgjöldin. Það er frekar takmarkaður kúnnahópur sem borgar sig inn á gjaldi fyrir eitt skipti. Það eru þeir sem fara mjög sjaldan í sund eða ferðamenn til dæmis. En hinir sem eru reglulegir gestir sundlauganna munu ekki þurfa að borga meira,“ segir Þórgnýr.



Fyrsta nóvember hefur stakt gjald í sund fyrir fullorðna hækkað um 260 prósent á tíu árum, en árið 2005 kostaði miðinn 250 krónur.

Fréttastofa tók púlsinn á sundlaugargestum í Laugardalslauginni í dag, en verðhækkunin leggst misjafnlega í fólk eins og sjá má í myndskeiðinu hér að ofan. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×