Richard L. Friedman, formaður fjárfesta í Edition Hotel Project, segir í yfirlýsingu sem hann hefur sent frá sér að áform um byggingu hótels við Hörpu séu óbreytt.
Frá því var greint í DV í dag að fjármögnun hótelsins væri í uppnámi vegna samþykktar Reykjavíkurborgar um að sniðganga ísraelskar vörur sem framleiddar eru á hernumdu svæðunum.
Í yfirlýsingunni segir Friedman að honum hafi verið vel tekið á Íslandi sem og verkefninu sem hann stendur fyrir.
„Við erum áfram mjög spennt fyrir fyrirhugaðri hóteluppbyggingu og þeim áhrifum sem hún mun hafa á íslenska ferðaþjónustu, efnahag landsins og ásýnd borgarinnar.
Við látum öðrum eftir pólitísk úrlausnarefni, hvort heldur er á Íslandi eða á alþjóðlegum vettvangi. Sjálfur hef ég fulla trú á umburðarlyndi Íslendinga og virðingu þeirra fyrir öllu fólki.
Áform okkar eru óbreytt.“
Formaður fjárfesta Hörpuhótelsins: „Áform okkar eru óbreytt“

Tengdar fréttir

Fimm stjörnu hótelið við Hörpu verður lúxus Marriott hótel
Bandaríska fasteignafélagið Carpenter & Company mun verða leiðandi í byggingu 250 herbergja, fimm stjörnu Marriott Edition hótels við Hörpu.

Einstök staðsetning á heimsmælikvarða
Aðstoðarforstjóri Marriott Edition í Evrópu segir fimm stjörnu hótel við hliðina á Hörpu bjóða upp á einstaka möguleika.

Sextán milljaðra fjárfesting á Hörpureitnum
Marriott hótelkeðjan reisir fyrsta fimm stjörnu hótelið í Reykjavík á næstu þremur árum undir nýju vörumerki lúxushótela.