„Það vita nú ekki allir en ferill Gunnars Rúnars hófst sem áhugamanns í Hafnarfirði, þar sem hann var fæddur árið 1917 og lést 1965, tæplega 48 ára gamall. En í upphafi ferilsins fór hann um bæinn og tók portrett myndir af eldri borgurum bæjarins, mest voru þetta karlar en þó var eitthvað um myndir af konum þarna í bland. Það voru gefnar út bækur með þessum myndum á sínum tíma og þá fylgdu vísur og kveðskapur myndunum. Ég er ekki frá því að þetta hafi gengið alveg ágætlega.“

Eftir heimkomuna 1946 og fram til 1957 starfaði Gunnar einkum sem kvikmyndagerðarmaður en tók að auki ljósmyndir fyrir Morgunblaðið 1953–1957. Frá 1958 starfaði Gunnar sem iðnaðar- og auglýsingaljósmyndari og tók myndir fyrir einstaklinga, fyrirtæki og stofnanir. Hann myndaði m.a. fyrir Rafha hf., Hafnarfjarðarbæ og Akureyri, auk þess nýttu Sjálfstæðisflokkurinn og búnaðarfélög víða um land sér þjónustu hans.
Gunnar Rúnar myndaði líka reglulega fyrir Reykjavíkurborg. Á þeim tíma hafði Sjálfstæðisflokkurinn hreinan meirihluta í borgarstjórn og áhrifafólk innan borgarinnar þekkti vel til natni Gunnars Rúnar og listfengis. Það hefur eflaust ekki heldur komið að sök að Gunnar Rúnar var sjálfstæðismaður, var virkur í félagsstarfi í Hafnarfirði og svona. Þegar hann fer að vinna fyrir Reykjavík þá var hann afskaplega flinkur við að láta borgina líta vel út. Séð í gegnum myndavél Gunnars Rúnars er Reykjavík einkar viðkunnanleg borg, nútímaleg, vel skipulögð, björt og krakkarnir hressir. Snyrtilegir almenningsgarðar mynda fagurlega umgjörð utan um heilbrigt mannlíf og kraftmikil uppbygging á sér stað. Þarna má líka finna stórskemmtilegar myndir af börnum og unglingum bæði í leik og starfi.
Málið er að þegar maður fer að skoða feril Gunnars Rúnars þá sér maður hvað hann var markaðsþenkjandi. Hann var líka með markaðsnef og opnaði til að mynda minjagripaverslun, gerði líka póstkort fyrir Árbæjarsafnið og fleira.

Gísli segir að það verði líka gaman fyrir sýningargesti að sjá kvikmyndað efni eftir Gunnar Rúnar. „Við höfðum samband við Kvikmyndasafn Íslands sem fór í gegnum og skannaði inn marga klukkutíma af efni og tók svo saman í skemmtilegan u.þ.b. 50 mínútna bút sem fær að rúlla í Kubbnum. Við nýtum nefnilega allt pláss hér á safninu undir sýningu, hvern krók og kima.“