Í yfirlýsingu samninganefndanna sem birt er á vef BSRB er lýst vonbrigðum með tilboð sem samninganefnd ríkisins lagði fram á fundi hjá ríkissáttasemjara fyrir helgi og var svar við fyrra tilboði samninganefndar félaganna þriggja. Sú kröfugerð byggði á niðurstöðu gerðardóms um kjör BHM og hjúkrunarfræðinga í síðasta mánuði.
„Nú þegar ítarlega rökstudd niðurstaða dómsins liggur fyrir, er í raun ótrúlegt að ríkisvaldið neiti að horfast í augu við þá niðurstöðu og kjósi frekar að efna til ófriðar við þrjú stærstu félög ríkisstarfsmanna innan vébanda BSRB og mismuna þannig starfsmönnum sínum gróflega,“ segir í grein sem formenn félaganna þriggja rita í Fréttablaðið í dag.
Fundað verður í deilunni á miðvikudag. „Ríkissáttasemjara þótti eðlilegt að kalla til þessa fundar til þess að skoða hvort jafn langt sé á milli og var fyrir viku síðan,“ segir Kristín Á. Guðmundsdóttir, formaður Sjúkraliðafélagsins. „Og ég hef ekkert heyrt og á því ekki von á öðru en við blasi óbreytt ástand. Það er engin bjartsýni hjá mér.“

Kristín segist harma þá stöðu sem uppi sé í deilunni og ekki átta sig á hvernig viðsemjendur félagsins ætli sér að bæta þessu ofan á allan þann skaða sem fyrrverandi verkföll hafi haft í för með sér. „Í fyrri tíð var oft rætt um að starfsmenn töpuðu svo og svo miklu á að fara í verkfall. En nýjustu tölur sýna að það er ekkert lítið sem ríkið og þjóðarbúið tapa á þessu.“
Samninganefnd og starfsfólk þessara þriggja stærstu félaga BSRB segir Kristín að séu langþreytt á drætti sem orðið hafi á samningum. Fyrst hafi þau verið beðin að bíða eftir samningum á almenna markaðnum og svo eftir verkföllum og gerðardómi.
„Svo þegar gerðardómurinn kemur þá töldum við að hann gilti um okkur líkt og um hafði verið rætt,“ segir Kristín og því hafi verið lagður fram launaliður innan þess ramma. „En þá allt í einu heykjast þeir á öllu. Og búið að láta fólk bíða í allan þennan tíma eftir því að við okkur yrði samið, ekki síst að þeirra eigin ósk.“
Sökin segir hún að liggi fyrst og fremst hjá ríkisstjórninni sem leggi samninganefnd ríkisins línurnar. „Það er tímasóun að gera kjarasamning sem við vitum að verður felldur.“