Í fjárlögum ríkisstjórnarinnar, sem kynnt voru í gær, er áformað að veita 149 milljónir króna á næsta ári til uppbyggingar ferðamannastaða. Ástæður þess að ekki er veitt meira fé til málaflokksins nú er að ekki hefur gengið að útdeila því fé sem sjóðurinn fékk og átti að nýtast í sumar til uppbyggingar. Samkvæmt atvinnuvegaráðuneytinu er umtalsvert fé, um 1,2 milljarðar króna, óhreyft í sjóðnum. Ekki hafi verið ráðstafað í þau verkefni sem úthlutað hafði verið til. Ástæður þessa samkvæmt ráðuneytinu eru seinagangur framkvæmdaaðila og tafir við undirbúning. Þetta staðfestir Albína Thordarson, formaður Framkvæmdasjóðs ferðmannastaða.

Ragnheiður Elín Árnadóttir sagði í Fréttablaðinu 30. apríl síðastliðinn fjögur ráðuneyti hafa hafið vinnu að áætlun um fjármögnun ferðamannastaða. Milljarð þyrfti árlega á næstu árum og yrði uppbyggingin fjármögnuð á fjárlögum. „Og hún verður tryggð, við munum axla okkar ábyrgð,“ sagði ráðherrann.